Almannatryggingar

Útsendur starfsmaður sem óskar eftir að falla undir almannatryggingalöggjöf heimalands síns verður að sækja um A1 vottorð í heimalandinu og skila því inn til Tryggingastofnunar.

Einstaklingur sem sendur er hingað til að vinna tímabundið, getur sótt um að falla áfram undir almannatryggingalöggjöf heimalands síns að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Áætlaður dvalartími má ekki vera lengri en 24 mánuðir, sbr. reglugerð EB nr. 883/2004. Í sérstökum tilvikum getur þó dvalartíminn verið lengri.

Útsendir starfsmenn og starfsmenn starfsmannaleiga sem koma hingað til lands til að starfa tímabundið þurfa að skila inn svokölluðu A1 vottorði til Tryggingastofnunar frá tryggingalandi sínu.

A1 vottorð segir til um undir hvaða almannatryggingalöggjöf viðkomandi starfsmaður fellur meðan á erlendum starfstíma stendur. A1 vottorð er sönnun þess að starfsmaður falli undir almannatryggingalöggjöf þess EES/EFTA-ríkis sem gefur út vottorðið meðan á starfstíma erlendis stendur. Vottorðið er gefið út fyrir ákveðið starfstímabil og kemur tímabilið fram á vottorðinu. Vottorðið er jafnframt staðfesting á því að viðkomandi einstaklingur sé lífeyris,- sjúkra- og vinnuslysatryggður. Samhliða A1 vottorði er S1 vottorð gefið út í tryggingalandi.

Æskilegt er að sækja um A1 vottorð áður en vinna í öðru EES/EFTA-landi hefst. Það getur skipt verulegu máli að hafa A1 vottorð meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði innheimt bæði hér á landi og í öðru EES-landi.

Hægt er að skila inn A1 vottorðum á tölvupósti tr@tr.is eða póstleiðis Tryggingastofnun, Laugavegur 114, 105 Reykjavík.

Nánar á www.tr.is

Ertu með spurningar? Hafðu þá samband við:

Tryggingastofnun
Sími: 560 4400
www.tr.is
tr@tr.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu