Slysa- og sjúkratryggingar

Almenna reglan er sú að útsendir starfsmenn eru ekki slysatryggðir á Íslandi. Til að fá sjúkratryggingu á Íslandi þarf að skila inn S1-vottorði til Sjúkratrygginga Íslands.

Slysatryggingar

Launþegar sem vinna hérlendis teljast slysatryggðir sbr. ákvæði laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tryggingin gildir almennt aðeins um launþega sem vinna á Íslandi og fá greidd laun á Íslandi. Hægt er að veita undanþágu frá slysatryggingu hérlendis ef starfsmaður er sannanlega tryggður í heimalandi sínu samkvæmt slysatryggingarlöggjöf heimalandsins  og S1 vottorð hefur verið gefið út.

Launþegar sem sendir eru til Íslands af erlendu fyrirtæki til að vinna hérlendis en fá greidd laun í heimalandi sínu teljast almennt ekki slysatryggðir á Íslandi.

Sjúkratryggingar

Útsendir starfsmenn og starfsmenn starfsmannaleiga sem koma hingað til lands til að starfa tímabundið þurfa að skila inn svokölluðu S1 vottorði til Sjúkratrygginga Íslands frá tryggingalandi sínu til að fá sjúkratryggingu á Íslandi. Grundvöllur útgáfu S1 vottorðs er A1 vottorð sem staðfestir að starfsmaður falli undir almannatryggingalöggjöf útgáfulandsins.

S1 vottorð er staðfesting á að starfsmaður sé sjúkratryggður í útgáfulandinu og jafnframt beiðni um að einstaklingur verði sjúkratryggður í viðtökulandinu á kostnað útgáfulands.

S1 vottorðið er skráð inn í tryggingaskrá á Íslandi og kemur starfsmaður því upp sem sjúkratryggður í kerfum hjá heilbrigðsveitendum á Íslandi. Starfsmaðurinn fær því sama rétt og aðrir sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi á meðan S1 vottorð er í gildi.

Hægt er að skila inn S1 vottorðum á tölvupósti (international@sjukra.is) eða póstleiðis (Sjúkratryggingar Íslands, alþjóðadeild, Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík).

Hafi starfsmaður ekki fengið útgefið S1 vottorð ásamt A1 vottorði geta Sjúkratryggingar Íslands óskað eftir vottorðinu fyrir hann. Hafa þarf samband við alþjóðadeildina og leggja inn beiðni um slíkt.

Nánar á www.sjukra.is

 

Ertu með spurningar?
Hafðu þá samband við:

Sjúkratryggingar Íslands
Sími: 515 0000
www.sjukra.is
sjukra@sjukra.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu