Hlutverk Vinnueftirlitsins

Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu.

Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi.

Eftirlitinu má skipta í þrennt:

  1. Eftirlit á vinnustöðum: Vinnustaðaeftirlit beinist í meginatriðum að því að sannreyna að fyrirtækin viðhafi forvarnastarf og að aðstæður á vinnustöðum séu í samræmi við lög og reglur.
  2. Vinnuvélaeftirlit: Eftirlit með tækjum og vinnuvélum öðrum en þeim sem eru skráð hjá Samgöngustofu svo sem lyftarar, kranar, gröfur, bílalyftur o.fl.
  3. Markaðseftirlit:  Eftirlit með innflutningi og framleiðslu véla og tækja sem notuð eru á vinnustöðum.

Fræðslan er margþætt:

  • Vinnueftirlitið leggur mikla áherslu á að auka þekkingu atvinnurekenda og starfsfólks á vinnuvernd, ábyrgð þeirra og skyldum. Mikið er gefið út af fræðsluefni um vinnuvernd og mest af því efni aðgengilegt heimasíðu Vinnueftirlitsins.
  • Reglulega eru haldin námskeið fyrir, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði, áhættumat og vinnuvélanámskeið auk mikils fjölda annara sérhæfðra námskeiða í vinnuvernd og meðferð hættulegra efna, sjá heimasíðu.
  • Þá heldur Vinnueftirlitið reglulega ráðstefnur um vinnuvernd og starfsmenn þess taka þátt í ráðstefnum og halda fyrirlestra um vinnuvernd og málefni því tengd.

Rannsóknir

  • Rannsóknir Vinnueftirlitsins beinast að því að afla þekkingar er lýtur að vinnuvernd, heilsu og líðan starfsfólks í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir og aðila vinnumarkaðarins.
  • Starfsmenn Vinnueftirlitsins eru hluti að því teymi sem rannsakar vinnuslys og þróar fræðsluefni og aðrar aðgerðir til að bregðast við þeim.

Höfuðstöðvar Vinnueftirlitsins eru að Bíldshöfða 9 í Reykjavík. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má fræðast meira um starfsemi þess, þjónustu, útibú og opnunartíma.

 

Ertu með frekari spurningar í tengslum við vinnuvernd? Hafðu þá samband við:

Vinnueftirlitið
Sími: 550 4600
www.vinnueftirlit.is
vinnueftirlit@ver.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu